150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég tek það fram að mér finnist mikilvægt að þetta samtal haldi áfram á þeim vettvangi þar sem það á heima og ekki hér inni í þingsal er sú að það er ákveðinn kostur við þennan dagskrárlið um atkvæðagreiðsluna. Það er ákveðin ástæða fyrir því að ég og fleiri viljum halda í þennan dagskrárlið. Hvers vegna er það? Vegna þess að þingmenn eru þá almennt viðstaddir. Þeir neyðast almennt til að hlusta á kollega sína öfugt við það sem oft er í 1., 2. og 3. umr. þar sem nánast enginn er í salnum, þar sem fáir eru að hlusta og þar sem lítil athygli er á því sem þingmenn stjórnarandstöðunnar segja að sé gagnrýnisvert við aðgerðir stjórnvalda. Ég benti á það, í liðnum um atkvæðagreiðsluna við uppsagnarleið ríkisstjórnarinnar, að einungis þrír stjórnarþingmenn hefðu tekið þátt í 1. og 2. umr. um þá leið, þessa risavöxnu 27 milljarða leið sem ríkisstjórnin er að fara — og við höfðum heyrt frá þremur stjórnarliðum. Ég fagnaði því að við heyrðum frá fleirum vegna þess að athyglin er meiri og það er verið að hlusta og þess vegna skiptir þessi dagskrárliður okkur máli.