150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég mun standa vörð um þennan lið, um atkvæðagreiðslu, fram í rauðan dauðann. Ástæðan er sú að virkasta umræðan verður akkúrat í þeim dagskrárlið. Eftir að allt annað hefur gerst, fólk er búið að mynda sér skoðanir á málunum, geta þingmenn komið hér upp tvisvar sinnum í eina mínútu og það verða öflug andsvör frá öllum og allir þingmenn sem hafa ekki sett sig inn í mál, sem treysta kannski bara sínum þingflokki, verða að standa frammi fyrir því að heyra samantekna nálgun á málinu. Þetta er gríðarlega mikilvægur liður sem tryggir að þingmenn geta ekki seinna sagt: Ég vissi það ekki, ég var ekki meðvitaður um það. Jú, þú sast við atkvæðagreiðsluna og fylgdist með umræðunni. Þú vissir hvað þú varst að gera. Auðvitað er það óþægilegt þegar maður þarf að greiða atkvæði með flokknum en þau óþægindi þurfa bara að vera þar ef fólk ætlar að greiða atkvæði vitandi vits með einhverju sem er vont mál. Þess vegna er þessi liður svona mikilvægur. Hann er upplýsandi fyrir þingheim, (Forseti hringir.) upplýsandi fyrir almenning og veitir aðhald við það mikilvæga vald sem felst í því að setja lög í landinu.