150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að líta um öxl og rifja upp 6. apríl 2017. Þá sátum við hér í sal og vorum að ræða fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022. Þá tjáðu þingmenn sig um atkvæðagreiðslu og eins og virðulegur forseti vék að komu fyrst fulltrúar allra flokka og gerðu grein fyrir því hvernig hver þingflokkur myndi greiða atkvæði, t.d. Katrín Jakobsdóttir fyrir hönd Vinstri grænna. Allt í allt voru þetta 29 athugasemdir um atkvæðagreiðslu. Eftir þessa einu frá Katrínu Jakobsdóttur komu tíu í viðbót frá hennar þingflokki, þar á meðal tvær frá þeim ágæta þingmanni sem situr í forsetastól núna, sem voru efnislegar, voru um efnisinnihald málsins. Þetta er bara eitt dæmi. Ég ætla ekkert að tiltaka þau fjölmörgu sem væntanlega liggja eftir (Forseti hringir.) hvert og eitt okkar eftir feril hér á þingi. Þetta er einfaldlega hefðin og hana ástundum við öll.

(Forseti (SJS): Sem betur fer var ekki heimsfaraldur á þeim tíma.)