150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um afskaplega mikilvægt mál, mikilvægt lífskjaramál fyrir allan almenning í landinu. Fyrirrennari þessa sjóðs sem við greiðum hér atkvæði um, Lánasjóður íslenskra námsmanna, hefur valdið hljóðlátri byltingu í íslensku samfélagi sem kannski er ekki alltaf talað mikið um en hefur valdið því að fólk frá efnaminni heimilum átti þess kost að brjótast til mennta svo að samfélagið allt hefur haft mikið gagn af. Smám saman hefur þetta félagslega hlutverk mátt þoka þannig að sjóðurinn hefur ekki getað gegnt því sem skyldi undanfarin ár. Þetta frumvarp bætir að einhverju leyti úr því en þó ekki nægilega vel að okkar mati í Samfylkingunni og þess vegna leggjum við fram ýmsar breytingartillögur sem við vonumst til að fái góðar undirtektir hér á þinginu.