150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um löngu tímabæra heildarendurskoðun á því hvernig við stöndum við bakið á námsmönnum. Ég tel að þær tillögur sem hér eru undir séu mjög til bóta fyrir námsmenn þar sem tekið er upp blandað kerfi námslána og námsstyrkja. Þessi heildarendurskoðun, eins og ég sagði áðan, er löngu tímabær. Atlaga var gerð að slíkri heildarendurskoðun 2013 en náði ekki fram að ganga í þinginu, en það er von mín að þetta verði til að bæta hag námsmanna til framtíðar.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þeim tillögum sem bættust við í þinglegri meðferð og eiga rætur að rekja til starfshóps undir forystu forsætisráðuneytis. Þær voru unnar í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og snúast um niðurfellingu ábyrgðarmanna og léttari endurgreiðslubyrði námslána fyrir þá sem þegar hafa lokið námi. Það mun verða veruleg kjarabót en er líka mikið réttlætismál. Ég tel að sú vegferð sem við lögðum af stað í 2009, þegar við felldum niður kröfu um ábyrgðarmenn á nýjum námslánum til framtíðar, sé nú komin á enda með þessari breytingu sem er stórt réttlætismál fyrir námsmenn á Íslandi, bæði í fortíð og framtíð.