150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[13:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nefna það um b-lið þessarar tillögu að þar er metnaðurinn ekki einungis sá að útvíkka það, samanber það sem hv. þingmaður nefndi í fyrri ræðu, heldur einnig að gera lögin skýrari. Það skiptir máli að þeir sem lesa lögin geti skilið þau eins og þau eru án þess að þurfa að brölta í gegnum guð má vita hvaða batterí til þess að komast að hinu rétta, sér í lagi ef sjóðstjórn tekur aðra ákvörðun en ráðuneytið gerir ráð fyrir.

Þar fyrir utan, hvað varðar a-lið breytingartillögunnar, óháð því hvort hér er um að ræða þann misskilning sem hv. þingmaður nefndi, sæi sá sem hér stendur ekkert að því að víkka þetta meira til að gefa nemendum enn meira svigrúm, jafnvel þó að upprunalega tillagan sem lögð var fram væri grundvölluð á misskilningi.

Ég ítreka að lokum að það skiptir máli að lögin séu skýr, ekki bara að þau þýði lagatæknilega eitthvað sem við hér á þinginu eða í ráðuneytinu getum sannfært okkur sjálf um.