150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi tillöguna sem hv. þingmaður nefndi þá fengum við mat á henni frá starfsfólki ríkisskattstjóra. Það kom fram þar að skilyrði hennar væru mjög matskennd og stönguðust á við ýmislegt sem ekki væri hægt að uppfylla í þessu, t.d. hvað væri átt við með fjárhagslegum samskiptum og öðru því sem þar er nefnt. Það væri mjög erfitt að skilja út á hvað tillagan gengi í raun og veru, til að stjórnvöld gætu framkvæmt það sem þar kemur fram með lögum.

Varðandi áhyggjur af því hvort þetta leiði til þess að fleiri fari í uppsagnir þá held ég að fyrirtæki standi frammi fyrir því að ákvarða það eftir því hvar hvert og eitt þeirra stendur eftir þá mánuði sem liðnir eru. Það er bara eðlilegt að þurfa að velja á milli þessara tveggja leiða; 25% tekjufall eða 75% tekjufall, það segir sig svolítið sjálft.