150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég verð að ítreka spurningu mína, hvort hún telji að frumvarpið komi í veg fyrir að þeir sem eiga fé í skattaskjólum, og eru jafnvel búnir að svíkja undan skatti og annað, notfæri sér þessa leið. Það er eiginlega ekki hægt nema hreinlega með því að banna þeim félögum sem eiga fé í skattaskjólum að sækja um þessa leið, jafnvel þótt féð sé þar með löglegum hætti. Mér sýnist það koma fram hjá Ríkisendurskoðun að taka þurfi vel á þessum málum og auka eftirlitið. Ég vona heitt og innilega að það verði gert og séð til þess að tekið verði á þessu. En við verðum líka að horfa á skýrslu Ríkisendurskoðunar, taka hana til nánari skoðunar og sjá til þess að farið sé eftir þeim athugasemdum sem þar koma fram og þeim fylgt eftir.