150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að lesa úttekt Ríkisendurskoðunar um hlutastarfaleiðina, þar sem segir m.a. að í frumvarpinu felist hert skilyrði um fjárhag og rekstur viðkomandi vinnuveitanda ásamt hlutlægum viðmiðunum, m.a. um tekjufall.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru einnig ákvæði sem stuðla að auknu aðhaldi og gagnsæi og renna styrkari stoðum undir eftirlit Vinnumálastofnunar. Ljóst er að fyrirtæki hafa nýtt sér leiðina þrátt fyrir að eiga ekki í bráðum rekstrar- eða greiðsluvanda.“

Þessi orð Ríkisendurskoðunar tel ég vera heilbrigðisvottorð fyrir þetta frumvarp.

Ríkisendurskoðun er ekki að benda á að eitthvað vanti upp á þessi skilyrði eða þessa leið til að koma í veg fyrir að fyrirtæki misnoti úrræðið. Við bættum þarna inn kröfu um raunverulega eigendur og við erum búin að krefjast þess að menn sýni fram á ársreikninga, hafi þeir staðið skil á staðgreiðslu og þess háttar, og að þeir leggi fram CFC-skýrslu sem við höfum margoft vísað hér til. (Forseti hringir.) Ef við vissum um töfralausn til að láta fyrirtæki borga löglega skatta til ríkisins þá væri búið að grípa til hennar. Við gerum það ekki í gegnum þetta frumvarp.