150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsöguna. Mig langar aðeins til að færa fókusinn frá fyrirtækjum sem hafa misnotað eða munu misnota úrræðin yfir til þeirra sem sannarlega þurfa á þeim að halda. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kennir ýmissa grasa og ég er ekki búin að fara nægilega vel yfir hana þannig að ég kunni hana aftur á bak og áfram á þessum stutta tíma, en þar kemur fram að fyrirtækin sem hafa nýtt sér leiðina á þeim tíma sem skýrslan nær til eru u.þ.b. 6.400. Þar af eru 85% með sex starfsmenn eða færri. Það segir ákveðna sögu um hversu háar fjárhæðir er um að ræða.

Mig langar til að byrja á því að spyrja hv. þingmann: Hefur hún einhverja tilfinningu fyrir því hve mörg af þessum fyrirtækjum hafa verið að misnota úrræðið? Hún segir í upphafi ræðu sinnar að allt of margir hafi misnotað þetta úrræði og þess vegna þurfi að herða það. Ég kem ekki inn á það hér en mig langar að gera það í seinna andsvari, ég tel að þar hafi meiri hlutinn farið offari. En mig langar til að spyrja hvaða upplýsingar við höfum, því ríkisendurskoðandi hafði þær ekki, hann gat ekki (Forseti hringir.) svarað því hversu hátt hlutfall þessara 6.400 fyrirtækja hefði orðið uppvíst að þessu. Það má leiða má líkur að því að upplýsingar okkar komi fyrst og fremst úr fjölmiðlaumfjöllun um málið. Þá má spyrja hvort það sé ekki eftirlitið sem dugar (Forseti hringir.) vegna þess að þá endurgreiddu mörg.

Ég spyr hv. þingmann: Hefur hún eða meiri hlutinn upplýsingar (Forseti hringir.) um hversu mörg fyrirtæki misnota úrræðið, hefur hún tilfinningu fyrir því eða ástæðu til að ætla að þau séu fleiri en hafa komið fram? (Forseti hringir.) Hvaða hlutfall af þessum 6.400 launagreiðendum?

(Forseti (BrynH): Forseti minnir á tímamörkin.)