150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir það að rauntímaeftirlit er mjög mikilvægt og Ríkisendurskoðun mun hafa þetta eftirlit áfram og fylgjast með þessu. Það kom líka fram að Vinnumálastofnun hefur fengið fjárstuðning frá ríkinu, 100 milljónir að ég held, til þess að auka þetta eftirlit enn frekar frá og með 1. júní. Hún er komin með fimm starfsmenn sérstaklega til þess að sinna því nú þegar, fyrir utan aðra starfsmenn sem eru að sinna öðrum verkefnum. En ég tek algjörlega undir þetta. Það er verið að bregðast við og það er mjög mikilvægt. Samkeyrsla á staðgreiðsluskrám og þeim upplýsingum sem koma inn til Vinnumálastofnunar er líka til þess að auðvelda mönnum að fá rauntímaupplýsingar um hvort fyrirtækin falla undir þessi skilyrði.