150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar skip sekkur og skipverjar falla fyrir borð er ekki endilega spurt að því hvort viðkomandi sé búinn að borga einhver gjöld til þess sem við á. Við stöndum frammi fyrir og stóðum frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum eins og oft hefur verið sagt. Hefðum við látið hvert einasta fyrirtæki fara í gegnum nálarauga hefðum við ekki verið á þeim stað sem við erum í dag, betri en við vorum á þá. Það þurfti að hafa þetta opið, skilyrði lágu fyrir. Því miður fóru fleiri þarna inn, kannski ekkert af vondum hug heldur hugsuðu bara: Við verðum að taka ákvörðun hér og nú um hvort við förum þessa leið. Síðan kemur í ljós að fyrirtæki sem þurftu ekki raunverulega á þessu að halda fóru þessa leið. Við sögðum: Við ætlum að endurskoða þetta að þessum tíma liðnum. Fyrirtæki hafa verið það heiðarleg að þau hafa skilað þessum fjármunum og það er gott. En við erum að (Forseti hringir.) herða skilyrðin núna þegar við erum komin lengra í því ferli að glíma við efnahagskreppuna.