150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég tek heils hugar undir það að þetta hafa verið mjög erfiðar aðstæður. En lagasetningarvaldið, sem er hér, verður að vera skýrt og það verður að vera skýrt hverjir eiga rétt á þessu og hverjir ekki. Hv. þingmaður nefndi það hér að skýrsla Ríkisendurskoðunar væri svona heilbrigðisvottorð fyrir framlengingu á leiðinni, sem við erum að ræða í þessu frumvarpi. Er þá ekki skýrslan líka áfellisdómur yfir þessari leið í upphafi þegar hún var nýtt af fyrirtækjum og opinberum aðilum sem áttu ekkert rétt á henni? Það held ég að blasi greinilega við. Þá spyr maður: Var ekki handvömm í vinnu nefndarinnar að hafa þetta ekki nógu skýrt þannig að Vinnumálastofnun gæti séð nákvæmlega hverjir ættu að fá þetta og hverjir ekki? (Forseti hringir.) Ég held að mistökin hljóti að liggja hér og í nefndarvinnunni, menn höfðu þetta ekki nógu skýrt.