150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi enn og aftur að ég tel að skýrsla Ríkisendurskoðunar hafi verið heilbrigðisvottorð fyrir það frumvarp sem liggur fyrir núna. Varðandi það frumvarp til laga sem er að renna sitt skeið vísa ég, með leyfi hæstv. forseta, til þess sem sagt er í skýrslunni:

„Allt bendir til þess að hlutastarfaleiðin hafi nýst til að tryggja framfærslu launamanna, styðja við vinnuveitendur vegna samdráttar og viðhalda ráðningarsambandi. Það hefur þó komið í ljós að þrátt fyrir áherslu stjórnvalda um að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur virðist að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laganna. Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag …“

Þess vegna þarf nákvæmlega að skýra þetta enn frekar, sem við erum að gera núna, með auknum skilyrðum, eftirliti og viðurlögum. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. En hefðum við ekki farið hina leiðina (Forseti hringir.) held ég að við værum á vondum stað í dag, bæði fyrirtæki og launafólk.