150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi samhengi málanna: Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu um uppsagnastyrkina talaði hann einmitt um í ræðu sinni, ef mig misminnir ekki, að skoða þyrfti þessi tvö mál í samhengi, að það þyrfti að skoða þau saman. En það er einmitt ekki gert og mögulega var aldrei vilji fyrir því af því að annað fer í efnahags- og viðskiptanefnd og hitt kemur til okkar í velferðarnefnd. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þessi tvö mál voru ekki bara saman, í sömu nefnd. Það hefði verið mun rökréttara út af því að þetta hangir auðvitað saman. Við sjáum það strax að það eru skilyrði, mismunandi skilyrði, í báðum frumvörpunum en í heildina er þetta ekki að tala saman, enda var engin samvinna til staðar sem ég veit um. Mögulega getur formaður velferðarnefndar upplýst betur um það en að mínu viti var ekki neitt samtal þarna á milli. Það er að sjálfsögðu galið.

Í atkvæðagreiðslum eftir 2. umr. um uppsagnarstyrki komu fram breytingartillögur frá Samfylkingunni um að bæta við skilyrðum í uppsagnarstyrkinn til þess einmitt að samræma það við hlutabótaleiðina en það var fellt, það var enginn vilji til þess. Það liggur í augum uppi að ef skilyrðin í hlutabótaleiðinni eru strangari og betur girt en uppsagnarstyrkirnir þá er augljóslega hvati þar til staðar. Ég hef bara áhyggjur af því að miklar hópuppsagnir verði. Ég hef líka áhyggjur af því að við séum allt of fókuseruð, afsakið slettuna, forseti, á að valdefla og flytja fjármagn úr ríkissjóði til fyrirtækja í staðinn fyrir að skoða hvernig við getum valdeflt einstaklinga og hvernig við getum komið í veg fyrir að þessi kreppa eða dýfa sem við erum í hafi slæm áhrif á heimilin í landinu og á fjölskyldur í landinu. (Forseti hringir.) Við erum að missa af gríðarlega góðu tækifæri til að gera miklar og góðar breytingar í samfélaginu þegar kemur að atvinnulífinu.