150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Tel ég að ríkisstjórnin hafi farið réttu leiðina með hlutabótaleiðinni? Ég er bara alls ekki viss. Mín nálgun hefði verið allt önnur og við Píratar hefðum valið að fara allt aðra leið. Varðandi það hvort þetta hafi skilað árangri þá bara veit ég það ekki. Þær upplýsingar sem ég hef er að nú séu 15.000 manns hætt að nota þetta úrræði og er það talin ástæða til að fagna einhverri velgengni. En við höfum engar upplýsingar í höndunum um hvort þessu fólki var sagt upp eða hvort það er komið í fullt starf aftur. Það eru upplýsingar sem koma ekki fyrr en síðar. Ég held að sagan muni bara þurfa að dæma um það hversu vel þetta úrræði hefur gengið. Við erum ekkert með þær upplýsingar enn þá.

Varðandi skilyrðislausar atvinnuleysisbætur: Þegar við valdeflum einstaklinga til að hafa stjórn á sínu eigin lífi, og þá er ég að tala um að ákveða að valdefla einstaklinga, erum við að gefa þeim svigrúm til að kjósa að viðhalda ráðningarsambandi við fyrirtæki sitt eða ekki. Atvinnuleysisbætur eru mjög lágar. Þetta er upphæð sem fæstir vilja eða jafnvel geta lifað af, þannig að auðvitað er hvati til staðar til að vinna meira. Ef fyrirtækið vill halda starfsmanni í hlutastarfi finnst mér líklegt að starfsfólk myndi kjósa að vera áfram í hlutastarfi, sérstaklega þegar það hefur sveigjanleika til að prófa sig áfram í öðrum störfum, skoða aðra möguleika. Þessi hugmynd snýr að því að í einhverja mánuði, kannski út árið, gætum við athugað hvaða áhrif það hefur á samfélagið að gefa fólki þennan sveigjanleika til að finna út úr hlutunum. Þetta er mjög furðulegur vinnumarkaður sem (Forseti hringir.) við horfum fram á, það veit enginn neitt. Það eru allir óöruggir um framtíðina. Ef við gefum fólki þetta öryggisnet held ég að við gætum séð áhugaverða hluti (Forseti hringir.) gerast og fólk og fjölskyldur blómstra.