150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu 2. minni hluta. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvert minni hlutinn telur vera mengið af þeim fyrirtækjum sem hafi val á milli leiða. Nú er stór munur á hlutabótaleiðinni og styrkjum í uppsögn. Skilyrðin fyrir því að komast inn í þau úrræði eru mjög ólík. Í öðru úrræðinu, hlutabótaleiðinni, þarf tekjusamdráttur ekki að vera nema 25% til að komast inn í það, á meðan það þarf að vera 75% tekjusamdráttur í uppsagnarleiðinni. Svo er annar stór munur á leiðunum. Fyrirtækin þurfa að tekjufæra stuðninginn í annarri leiðinni en launamaðurinn fær stuðninginn í hinni. Það er fullt af alls kyns svona mun. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvert er mengið? Hvað telur þingmaðurinn að það sé stór hluti af þessum fyrirtækjum sem hafa eitthvert raunverulegt val á milli leiða? Ef fyrirtækin sjá sér ekki fært að fara hlutabótaleiðina er ekki þar með sjálfgefið að þau geti farið í uppsagnarleiðina. Það er bara langur vegur frá. Ég gat ekki skilið Vinnumálastofnun betur en að það séu margir farnir út af hlutabótaleiðinni nú þegar af því að úrræðið hefur virkað og viðkomandi fyrirtæki hafa getað ráðið fólk. Svo á eftir að koma í ljós hversu margir fara út af uppsagnaleiðinni. Það á eftir að koma í ljós seinna. En hjá flestum sem hafa tilkynnt um að hafa farið af hlutabótaleiðinni var það út af því að starfsmenn fóru í fullt starfshlutfall aftur.