150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur snýr formaður velferðarnefndar út úr orðum mínum. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri umræðu sem hér hefur verið, ég er bara að taka þátt í henni. Er eitthvað hægt að snúa út úr því? Í umræðunni er verið að tala um leiðirnar, sem eru eðlisólíkar, og hvora þeirra fyrirtæki komi til með að stökkva á af því að þær séu betri eða verri hvað það varðar. Sú gagnrýni hefur komið fram á þá leið sem er í efnahagsnefnd að hún sé betri og einfaldari fyrir fyrirtæki. Ég held að það sé engin vitleysa að draga það fram hér og ég er alls ekki að gera lítið úr þeirri umræðu vegna þess að svona stórt mál þarf auðvitað að ræða. Við erum að tala um 56 milljarða aukningu í Atvinnuleysistryggingasjóð. Það eru ólíkar skoðanir á því hvort við þurfum að setja skilyrði fyrir því, bæði til fyrirtækja og jafnvel launþega og kannski útvíkka til einhverra hópa sem tökum ekki utan um núna. Umræðan hefur verið lifandi frá því í mars og það er ekkert óeðlilegt í því og ég er ekki að gera lítið úr henni, alls ekki. En það er allt í lagi að hún komi fram og ég taki undir hana.