150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég var eingöngu að vísa í hennar eigin orð þar sem hún talaði um að hún áttaði sig ekki á því hvernig umræðan væri hér, þetta væri bara eitthvert karp milli nefnda um hvor leiðin væri betri. Þetta skrifaði ég niður eftir hv. þingmanni. Ég var ekki að segja að hv. þingmaður mætti ekki leggja hér skoðun sína fram eða ætti ekki að taka þátt í umræðunni eða neitt slíkt, alls ekki.

Ég tók líka eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún sagði úrræðin gjörólík og það væri óhugsandi að hótelrekstraraðili eða hóteleigandi færi að reka 100 starfsmenn, af því að maður rekur ekki hótel á núll starfsmönnum, skrifaði ég hérna og hef beint eftir hv. þingmanni. Nú verður hv. þingmaður að átta sig á því að það frumvarp sem er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd snýr að greiðslu hins opinbera, greiðslu stjórnvalda, á launum í uppsagnarfresti. Í því frumvarpi er einmitt ekki verið að tala um að eigandi hótels reki það á núll starfsmönnum heldur að eigandi hótels fái stjórnvöld til að borga laun starfsmanna í (HSK: Í …) uppsagnarfrestinum, sem er t.d. næstu þrír mánuðir, u.þ.b. sá tími sem (Gripið fram í.) getur skipt sköpum varðandi reksturinn. Þá rekur hann ekki hótel á núll starfsmönnum heldur einmitt á fullum starfskröftum þeirra … (Gripið fram í.)— Nei, ég verð að fá að hafa orðið, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, sem er búin að grípa hér fram í ítrekað. En það er einmitt munurinn á þessu, að í (Forseti hringir.) uppsagnarleiðinni fær vinnuveitandinn að fullnýta starfskrafta þess sem sagt hefur verið upp.