150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:40]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég meinti var að þegar fyrirtæki velja hvora leiðina þau fara þá finnast mér leiðirnar fyrir fyrirtæki vera eðlisólíkar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í annarri leiðinni hefur hann starfsmennina á uppsagnarfresti og síðan hljóta þeir að fara. (HVH: Eða vera endurráðnir.)— Eða vera endurráðnir. En það hlýtur þá að vera miklu stærri ákvörðun sem fyrirtækið tekur þegar það segir upp starfsmönnum, þótt þeir fái greitt frá ríkinu í uppsögninni. Það horfir þá fram á að starfsemin sé að hverfa, að minnsta kosti að stórum hluta. En ef það fer í hlutabótaleiðina þá hlýtur hugsunin að vera sú að með því fari starfsemin aftur af stað á fullu í því formi sem hún var þegar leiðin var valin. Ég er að tala um það. Leiðirnar eru mjög ólíkar. Þess vegna þurfa fyrirtækin að ákveða hvora leiðina skuli að fara.

Mér finnst umræðan vera svolítið á villigötum, að leiðirnar séu mjög svipaðar og það sé betra að fara í uppsögn. Hv. þingmaður sagði í dag, held ég, ég er kannski ekki eins hraðskrifandi og þingmaðurinn, að stjórnvöld væru að reka fyrirtæki í hópuppsögnum. Ég held að það sé ekki þannig. (HVH: Þar erum við ósammála.) Þar erum við ósammála.