150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að ræða við hann um þann hvata sem stjórnvöld hafa ákveðið að setja inn í kerfið til fyrirtækja, um að fara frekar í uppsagnir en að fara í hlutastarfaleiðina, sem blasir við. Fjöldi fyrirtækja í ákveðnum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið fyrir næstum því 100% tekjufalli, eins og við höfum komið inn á áður. Mig langar að lesa smáskilaboð sem mér bárust eftir umræðuna áðan þegar við hv. þingmaður vorum að ræða nákvæmlega það. Ég les þau hér upp, með leyfi forseta:

Smádæmi af fyrirtækinu sem ég vinn hjá sem mig grunar að sé frekar dæmigert. Um er að ræða stóra verslun sem miðar aðallega að ferðamönnum. Hún setti næstum allt starfsfólk sitt á hlutabótaleiðina um leið og opnað var fyrir hana og sagði bara upp örfáum starfsmönnum þann mánuðinn þótt tekjurnar hefðu þá strax pompað niður í næstum ekki neitt. Daginn eftir að uppsagnaleiðin var kynnt var öllum starfsmönnum fyrirtækisins með tölu sagt upp samstundis.

Þetta er raunveruleikinn og við fáum fregnir af þessu á hverjum degi. Nú nálgast mánaðamót þannig að mér finnst mjög óábyrgt að láta eins og það sé val fyrir fyrirtæki sem er að ströggla og vonast til þess að hagur þess vænkist á næstu mánuðum, hvort það ætlar að nota starfsfólk sitt áfram í 25% starfshlutfalli, eða þá í 100% starfshlutfalli næstu þrjá mánuði á launum hjá ríkissjóði.