150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða andsvar. Ég get tekið undir með honum varðandi skilyrðin. Ég kom inn á það í ræðu minni að skilyrðin ganga of langt. Við ræddum það og fórum yfir það í hv. velferðarnefnd. Við fengum umsagnir úr báðum áttum. Fulltrúar launþega lögðu gríðarlega áherslu á þessi skilyrði og jafnvel að herða þau, meðan fulltrúar atvinnulífsins lögðu áherslu á að stytta þyrfti gildistímann til þess að þau gætu gengið upp fyrir launamanninn, til að verja störf launamanna.

Ef ég hefði fengið að semja þetta mál í upphafi hefðu þessi skilyrði ekki verið sett. Ég get alveg sagt það. En ég ætla að fallast á þessa niðurstöðu vegna þess samtals og þeirrar samvinnu sem við höfum átt í gegnum Covid-ástandið sem við höfum verið að takast á við. Þá varð þetta lendingin sem ég ætla að fallast á, þótt ég hefði kosið að skilyrðin væru öðruvísi.

Ég get að hluta til tekið undir lokaorð hv. þingmanns um að þau skilyrði sem við setjum hér ýti fólki í uppsögn. En það sem ég hef verið að benda á er að það er ekki verið að ýta fyrirtækum í uppsagnaúrræðið af því að þau komast ekki inn í það. En ég get tekið undir það að það eru fleiri fyrirtæki sem taka bara þá ákvörðun sem þau hefðu annars tekið í upphafi Covid-ástandsins, að segja upp fólki án þess að nýta sér uppsagnarstuðning stjórnvalda. Það munu koma þannig mál. Ég get tekið undir það.