150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð og fín umræða. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að tekið hefði verið tillit til umsagnaraðila, bæði launþega og atvinnurekanda, aðila beggja vegna borðsins. Þá langar mig að hressa upp á minni hv. þingmanns; það er vissulega rétt að ASÍ fagnaði frumvarpinu og var með sterkari skilyrði. Samtök atvinnulífsins sögðu einfaldlega: Það var ekki talað við okkur. Hér er verið að hegna þorra launafólks fyrir afglöp örfárra og Bandalag háskólamanna sagði, svo að ég lesi orðrétt, með leyfi forseta:

„Að lokum átelur BHM stjórnvöld fyrir að hafa eingöngu haft samráð við Alþýðusamband Íslands við gerð frumvarpsins, en ekki önnur heildarsamtök launafólks.“

Þannig að það er rangt að haft hafi verið víðtækt samráð við gerð hinna ítarlegu skilyrða. Fyrst það er komið á hreint langar mig að spyrja hv. þingmann, ekki síst í ljósi orða hans í samskiptum við hv. formann fjárlaganefndar: Sér hv. þingmaður fyrir sér að endurskoða þetta og samþykkja tillögu 2. minni hluta um að hin stífu skilyrði verði bundin við hámarksfjárhæð þeirrar aðstoðar sem viðkomandi fyrirtæki fær fyrir hönd launþega sinna? Þ.e. að þorri þessara litlu fyrirtækja, sem ég ítreka að fara hátt yfir 90%, um 95%, ef við miðum við 30–50 millj. kr. — við miðuðum við 50 millj. kr. í breytingartillögum 2. minni hluta, það má færa þá tölu fram og til baka — en bara að tryggja að þetta séu þá þau fyrirtæki sem spila með umtalsverða fjármuni, þessi minni fyrirtæki sem greiða t.d. arð, til þess einfaldlega að standa undir skuldbindingum svo þau geti haldið úti rekstri, svo þau geti haft fólk í vinnu, svo þau geti haldið uppi íslensku atvinnulífi sem byggist á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Er möguleiki að hv. þingmaður (Forseti hringir.) horfi jákvæðum augum til slíkrar breytingar?