150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mig langar að venda kvæði mínu í kross og fara beint í annað. Í máli þingmanns, bæði í ræðu hans og í andsvörum fyrr í dag, kom fram nokkuð sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo að hann væri að gagnrýna atriði sem fram kemur í breytingartillögum 2. minni hluta varðandi endurgreiðslu, þar sem 2. minni hluti talar um að endurgreiðsla verði án álags. Hv. þingmaður orðaði það sem svo að þar væri ekki hægt að tala um endurgreiðslur, af því þetta væri til launþega. Nú er það svo að þetta hugtak, endurgreiðslur, er í frumvarpinu. Það er ekki runnið undan rifjum 2. minni hluta. Þar erum við einfaldlega að veikja hið harðorða orðalag með því að draga úr álaginu ef fyrirtæki eiga frumkvæði að því að endurgreiða. En endurgreiðsluhugtakið er í frumvarpinu og tillögum meiri hlutans. Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér hver misskilur hvað í þeim efnum?