150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hlutastarfaleiðin, sem við ræðum hér nú og stendur til að framlengja með þessu frumvarpi, hafi reynst mörgum fyrirtækjum vel og komið á ögurstundu, ef svo má segja, í rekstri marga þegar óvissan var hér um bil algjör vegna heimsfaraldursins og brast á með afar skömmum fyrirvara með tilheyrandi áhrifum á allt samfélagið.

Tilgangurinn með þessari leið er sá að bjarga störfum og milda það fjárhagslega högg sem fyrirtæki, einkum starfsfólk þeirra, verður fyrir í þessum mesta efnahagssamdrætti sem við höfum séð í ein 100 ár. Þessi leið á að koma og kemur í veg fyrir atvinnuleysi og hina mikilvægu tengingu milli atvinnurekenda og launþega, að halda ráðningarsambandinu. Þegar úrræðinu var komið á um miðjan marsmánuð herjaði veiran hvað mest á landsmenn og úrræði stjórnvalda þurftu að vinnast hratt og frumvörp voru keyrð í gegnum þingið. Við í Miðflokknum höfum stutt þær leiðir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna þess að það er mjög mikilvægt að við stöndum saman í því að lágmarka það tjón sem við höfum staðið frammi fyrir vegna veirufaraldursins. Við í Miðflokknum höfum komið með ýmsar tillögur og hugmyndir í þeim efnum sem hefur því miður ekki verið hlustað á. Ég er óþreytandi að minnast á það hér vegna þess að stjórnvöld hafa óskað eftir samstarfi og hugmyndum en síðan þegar á hólminn er komið hefur það verið sýndarsamstarf af hálfu stjórnvalda. En við í Miðflokknum höfum stutt þessa aðgerð og munum gera það vegna þess að þetta er sú leið sem skynsamlegt er að fara í þeim aðstæðum sem við höfum verið að glíma við.

Hlutabótaleiðin var samþykkt þannig að ekki var nægilega skýrt hverjir áttu rétt á því að nota það úrræði og fjöldi fyrirtækja nýtti sér þann stuðning. Segja má að það hafi verið of mikið í höndum stjórnenda fyrirtækja að meta það hvort þau ættu rétt á stuðningnum eða ekki. Í þessum efnum er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækjanna mikil og víðtæk á tímum veirufaraldurs, sem og endranær, að sjálfsögðu. En ljóst er að sum fyrirtæki þáðu þessa aðstoð án þess að þurfa hana og greiddu síðan til baka. Þau fyrirtæki eru í miklum minni hluta, eins og komið hefur fram hér og kom fram í ræðu Ásmundar Friðrikssonar, en þau voru fyrir vikið í kastljósi fjölmiðla og almennings. Í meiri hluta tilfella var störfum bjargað og þar með rekstrargrundvelli heimilanna.

Það er að sjálfsögðu auðvelt að benda á það sem betur hefði mátt fara. Sá lærdómur sem draga má af hlutabótaleiðinni er að stjórnvöld hefðu þurft að veita ríkari og skýrari leiðbeiningar um markmið úrræðisins og hverjum það var ætlað. Stjórnvöld, og ekki síst almenningur, hafa lýst vanþóknun á því hvernig sum fyrirtæki misnotuðu þetta úrræði, en slík fyrirtæki voru í miklum minni hluta. Það er rétt að halda því til haga. Að sjálfsögðu tóku þessi sömu fyrirtæki mikla áhættu, orðsporsáhættu, og við þekkjum að enginn atvinnurekandi vill hafa það yfir sér að fólk vilji ekki versla hjá viðkomandi, í því felst að sjálfsögðu mikil áhætta. En við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir neikvæða umræðu undanfarnar vikur hvað þetta varðar hefur úrræðið nýst fjölda launamanna. Hins vegar munu þær kvaðir sem felast í frumvarpinu sumar hverjar auðvelda atvinnurekendum þá ákvörðun að hverfa frá notkun þessa úrræðis og leita annarra leiða til að draga úr launakostnaði. En maður spyr sig: Við hverja er að sakast þegar fyrirtæki nýttu sér úrræðið sem gátu komist hjá því? Er það ekki fyrst og fremst löggjafinn sem talaði ekki nógu skýrt um hverjir ættu í raun og veru rétt á því?

Síðan var eftirlitið með úrræðinu náttúrlega ekkert. Komið hefur fram að mikið álag var á starfsmönnum Vinnumálastofnunar og var skiljanlega erfitt fyrir það ágæta fólk, sem hefur staðið sig frábærlega, sem var í því að greiða út bætur en þurfti síðan að sinna eftirlitinu um leið. Hér er náttúrlega fyrst og fremst við yfirvald stofnunarinnar, ráðuneytið sjálft, að sakast að hafa ekki tryggt það að Vinnumálastofnun gæti sinnt þessu eftirliti. Vitað var að það þyrfti að vera eftirlit með þessu, miklir fjármunir í húfi o.s.frv. og fullkomlega eðlilegt að hafa slíkt. Ég minni á að komið hefur fram að í Svíþjóð starfa 100 sérfræðingar við eftirlit með hlutabótaleiðinni þar í landi, þannig að ég myndi segja að ráðuneytið hafi ekki staðið sig í því að gera Vinnumálastofnun kleift að sinna eftirliti hér eins og vera ber.

Við skulum vona að þau fyrirtæki sem nýttu sér þetta úrræði en gátu komist af án þess, dragi lærdóm af málinu og axli þá ábyrgð.

Það eru örugglega tilfelli þar sem hægt hefði verið að halda fólki í óbreyttu starfshlutfalli þó að verkefnin væru fá. En með þessu frumvarpi er úrræðið framlengt og um leið þrengt þannig að það nær eingöngu til 50% starfshlutfalls frá og með 1. júlí. Fleiri skilyrði bætast við, eins og ef fyrirtæki hafa orðið fyrir tekjufalli sem nemur 25%. Það er skynsamlegt svo úrræðið nýtist þeim fyrirtækjum sem lenda sannarlega í vandræðum vegna faraldursins.

Herra forseti. Ég vil hér næst koma inn á arðgreiðslur og kvaðir í frumvarpinu er lúta að greiðslu arðs. Arður er ekkert slæmt fyrirbæri, eins og sumir vilja halda fram, þvert á móti er arður mikilvægur í fyrirtækjarekstri. Með arði er átt við greiðslur fyrirtækis í atvinnurekstri til eigenda sinna. Fyrirtæki getur því aðeins greitt arð að það hafi verið rekið með hagnaði á einhverju tímabili. Opinber umræða um hagnað og arðgreiðslur ber oft þann beiska keim að hagnaður og arðgreiðslur séu af hinu slæma og skerði hag launafólks og jafnvel samfélagsins alls. Það er mikill misskilningur. Ef fyrirtækið skilar ekki hagnaði bresta forsendur rekstrarins og fólk missir vinnuna og allir tapa á endanum. Hagnaður og arðgreiðslur eru því góð fyrir samfélagið og grunnforsenda atvinnurekstrar.

Mörg fyrirtæki leita nú að nýjum fjárfestum enda er erfitt um vik að nálgast lánsfé. Það kann að reynast erfitt ef ekki verður heimilt að greiða út arð næstu þrjú árin, eins og segir í frumvarpinu. Þó standa vonir til þess að því verði breytt áður en frumvarpið verður að lögum. Einnig er rétt að hafa í huga að stjórnendum er samkvæmt hlutafélagalögum óheimilt að takmarka rétt hluthafafundar til að ákveða arðgreiðslu. Jafnvel þótt stjórn geri ekki tillögu til hluthafafundar um arðgreiðslu eiga hluthafar, sem eiga samtals a.m.k. einn tíunda hluta hlutafjár, kröfu um að tilteknum arði sé úthlutað, samanber 2. mgr. 101. gr. hlutafélagalaga.

Nokkur samtök atvinnurekenda skiluðu sameiginlegri umsögn við frumvarpið og segja að þar sé verið að takmarka þennan mikilvæga lögbundna rétt minni hluta hluthafa ef arðgreiðsla verður ekki ákvörðuð nema með tilheyrandi tjóni fyrir félagið, þ.e. að því verði samhliða gert að endurgreiða bætur starfsmanna með álagi, eins og lagt er upp með í frumvarpinu. Ég held að aðalatriðið sé að fara yfir þetta varðandi þessi þrjú ár og stytta þann tíma. Ég tel þetta vera óskynsamlegt eins og lagt er upp með og skilst að von sé á breytingartillögu í þá veru. Ég vona að svo verði. Að mati samtakanna þarf að endurskoða þetta ákvæði, stytta tímabilið og heimilað að takmarka arðgreiðslur.

Þegar mestu skammtímaáhrifin og óvissan er minni hvað veirufaraldrinum varðar þá verða stjórnvöld að leggja strax áherslu á að leita leiða svo atvinnulífið skapi almennt ný störf svo tryggja megi öfluga viðspyrnu. Hlutabótaleiðin er ekki endilega farsælasta leiðin til þess þegar fram í sækir, það má ekki gleyma því. Við verðum að hafa það í huga að hún er neyðarúrræði fyrir fyrirtæki sem lent hafa í miklu tekjufalli. Aftur á móti gæti örvun fjárfestingar til framtíðar; skattbreytingar, breytingar á regluverki og slíku, náð ágætum markmiðum og ekki síst lækkun tryggingagjaldsins, sem við í Miðflokknum höfum talað sérstaklega fyrir og verið óþreytandi að minnast á og m.a. flutt breytingartillögur um þess efnis að það verði fellt niður fram að áramótum og síðan lækkað í framhaldi af því. En því miður var tillaga okkar Miðflokksmanna felld af stjórnarliðum sem hafa síðan verið að kalla eftir hinum ýmsu tillögum. Fleiri sem þekkja til í þessum efnum á viðskiptasviðinu hafa nefnt mikilvægi þess að lækka tryggingagjaldið.

Herra forseti. Ég vil að lokum nefna skýrslu Ríkisendurskoðunar um nauðsynlegt eftirlit með greiðslu hlutabóta, ég kom aðeins inn á það í upphafi ræðu minnar. Hv. þm. Halldóra Mogensen, að ég held, sagði hér í umræðunni að sagan kæmi til með að dæma þetta úrræði. Við skulum vona að það verði jákvætt þegar upp er staðið. En ég held að það sé alveg ljóst að nú þegar hafi eftirlitinu verið ábótavant og að það hafi í rauninni ekki verið neitt. Á það bendir Ríkisendurskoðun í vandaðri skýrslu, frumkvæðisskýrslu, sem kynnt var í gær. Er mjög ánægjulegt að stofnunin skuli hafa sett vinnu í það og náð því á svo skömmum tíma vegna þess að úttektin er mikilvægt innlegg í þessa umræðu.

Eins og segir í skýrslunni hefur komið í ljós að þrátt fyrir áherslur stjórnvalda um að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur, virðist vera að nokkurt frjálsræði hafði ríkt í túlkun laganna. Það verður séð, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, á lögskýringargögnum og lögunum sjálfum að greiddar voru út bætur til fyrirtækja og opinberra aðila sem ekki var í raun lagaheimild fyrir. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni og maður spyr sig: Lásu menn ekki lögin nægilega vel eða voru þau ekki nægilega skýr í þessum efnum? Það er greinilega pottur brotinn í þessari lagasmíði. Auk þess myndi maður ætla að félagsmálaráðuneytið hefði átt að leiðbeina stofnun sinni, Vinnumálastofnun, í þessum efnum í því gríðarlega álagi sem þeir ágætu starfsmenn stofnunarinnar hafa verið. Vinnumálastofnun vinnur samkvæmt lögunum og greiðir bæturnar út samkvæmt þeim. Ef einhver vafatilvik voru varðandi túlkun laganna hefði ráðuneytið átt að aðstoða í þeim efnum. Ekkert hefur komið fram um það og væri rétt að félagsmálaráðherra myndi fara yfir þetta mál í framhaldi af niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, þar sem fram kemur að verið sé að greiða fé úr ríkissjóði sem ekki er í raun lagaheimild fyrir. Það er t.d. ekki ætlast til þess og hvergi er hægt að sjá að sveitarfélög og opinberir aðilar hafi haft heimild til að nýta sér þetta úrræði og heldur ekki fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag. Ég segi þetta hér vegna þess að ég tel nauðsynlegt að fara nánar yfir það. Þó er búið að girða fyrir þessa hluti í hinu nýja frumvarpi en við verður samt að ræða þetta vegna þess að hér eru miklir fjármunir í húfi.

Ég vil í lokin benda á nokkuð athyglisverða athugasemd sem Ríkisendurskoðun nefnir í skýrslunni þegar rætt er um afturvirkar breytingar á staðgreiðslu opinberra gjalda. Í skýrslunni segir:

„Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hafa um 160 launagreiðendur óskað eftir hækkun á áður tilkynntum launum í janúar og febrúar. Heildarhækkun á launum fyrir þessa tvo mánuði nemur rúmum 114 millj. kr. Umræddar hækkunarbeiðnir eru bæði hærri og fleiri en í venjulegu árferði. Ríkisendurskoðun telur að kanna þurfi nánar ástæður fyrir umræddum hækkunum.“

Þetta var aðeins rætt á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun. Ég spurði ríkisendurskoðanda sérstaklega út í þetta atriði og virðist sem svo að þarna hækki aðilar einfaldlega áður tilkynnt laun, launagreiðslur í janúar og febrúar, til að tryggja hærri greiðslur út úr atvinnuleysisbótakerfinu. Hér er náttúrlega um misnotkun á bótakerfinu að ræða og þarf að sjálfsögðu að fylgja því vel eftir. Síðan ítrekar ríkisendurskoðandi að eftirlit Vinnumálastofnunar sé mjög mikilvægt og í ljósi þessa mikla álags sé áríðandi að Vinnumálastofnun sé tryggður sá mannskapur og þeir sérfræðingar sem til þarf til að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað, eins og það er orðað í skýrslunni. Í mínum huga er þetta mjög vönduð og góð skýrsla sem kemur alveg á réttum tíma inn í þessa umræðu. Ég veit að Ríkisendurskoðun og það ágæta starfsfólk sem þar starfar lagði mikið á sig til þess að til að klára hana í tíma. Fyrir það ber að þakka.

Ég vil auk þess nota tækifærið, eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi réttilega, og þakka starfsmönnum Vinnumálastofnunar fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem það hefur sinnt núna, starfsfólkið hefur unnið myrkranna á milli við að koma þessum greiðslum til þeirra sem eiga rétt á þeim. Það segir okkur að við eigum hæft og gott starfsfólk í þessum stofnunum. En ég minni líka á að ráðuneytið ber ábyrgð á því að aðstoða í þessum efnum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir starfsmenn Vinnumálastofnunar geti farið ofan í saumana á því hverjir fengju þessa greiðslu og hverjir áttu ekki rétt á henni undir þessum kringumstæðum, undir þessu mikla álagi. Þar finnst mér að ráðuneytið hafi brugðist þessari ágætu stofnun, að hafa ekki hjálpað til við að skera úr um álitaefni. Auðvitað ber ráðuneytinu að gera það. Eins og við höfum rætt hér eru miklir fjármunir í spilunum og þetta er sameiginlegur sjóður okkar landsmanna allra sem við eigum að umgangast af virðingu. En að öðru leyti þakka ég ágæta umræðu.