150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[22:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni getum ekki greitt atkvæði með frumvarpinu vegna þess hvernig það er búið. Ég vil hér vitna í það sem fram kom í bréfi Alþýðusambands Íslands til allra þingmanna í morgun. Sambandið gerir alvarlega athugasemd við, með leyfi forseta:

„… að fyrirtækjum séu sett mismunandi skilyrði eftir því hvort þau nýta sér hlutabótaleið eða aðstoð við greiðslu launa á uppsagnarfresti. Með þessu móti er löggjafinn að skapa beinan hvata til að segja upp fólki fremur en að nýta hlutabótaleiðina sem þó er mun æskilegri fyrir launafólk, enda viðhelst þá ráðningarsamband. Það er tækifæri til að koma í veg fyrir þetta slys.“

Það var tækifæri til að koma í veg fyrir þetta slys. Skilyrðin sem sett eru í frumvarpið af hálfu stjórnarliða og ríkisstjórnarinnar eru þess eðlis að það breytir engu hvort um er að ræða risafyrirtæki sem greiðir milljarða í arð eða pínulítið fjölskyldufyrirtæki sem er nánast rekið á eigin kennitölu. Sömu skilyrði gilda fyrir alla. Það getum (Forseti hringir.) við ekki samþykkt af því að það mun valda litlum og meðalstórum fyrirtækjum og launþegum í landinu miklu tjóni.