150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er vissulega mikilvægt að aðstoða fyrirtæki með róttækum aðgerðum. Samspil þessa frumvarps og framlengingar hlutabótaleiðarinnar er augljóst. Það eru skýrir hvatar fyrir stjórnendur fyrirtækja til að velja fremur að segja fólki upp án þess að réttindi launafólks séu nægilega tryggð í frumvarpinu. Veruleikinn gæti því allt of oft orðið sá að fyrirtæki segi upp starfsfólki og njóti starfskrafta þess á kostnað ríkisins og spyrni sér síðan upp þegar þessum hremmingum er lokið. Þá spyr ég: Er það ekki umhugsunarefni hvort þessi leið muni á endanum raska samkeppnisstöðu fyrirtækja? Þetta frumvarp hefði verið illskárra ef stjórnarliðar hefðu samþykkt þær breytingar sem atkvæði voru greidd um fyrr í dag, en þeim var öllum hafnað. Ríkisstjórnin verður því einfaldlega sjálf að bera ábyrgð á þeirri leið sem farin er. Þingmenn Samfylkingarinnar munu segja nei.