150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og ég hef nefnt áður í umræðu um þetta mál þá hefðum við í Miðflokknum viljað fara aðra leið. Við höfum hins vegar leitast við að greiða fyrir öllum málum sem gætu verið til þess fallin að bregðast við því ástandi sem nú er við að eiga. Ég hef hins vegar talsverðar áhyggjur af því hvernig þetta mál hefur þróast og með breytingartillögu sem nú liggur fyrir óttast ég að ýtt verði undir meira atvinnuleysi, töluvert meira atvinnuleysi en þörf hefði verið á, og að færra fólk fái starf en ella, nema hugsanlega nokkrir á lægstu mögulegu launum. Ef breytingartillagan nær fram að ganga tryggir málið hvorki hagsmuni atvinnurekenda né launþega eins og kostur væri á enda haldast reyndar hagsmunir beggja aðila í hendur.

Það kemur ekki til greina af okkar hálfu að greiða atkvæði gegn þessu máli, enda er bráðnauðsynlegt, fyrir bæði fyrirtæki og launþega, að það klárist í dag, fyrir mánaðamót. En vegna fyrrnefndra ágalla gerum við ekki ráð fyrir að greiða atkvæði um breytingartillöguna og, verði hún samþykkt, ekki heldur um málið í heild.