150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þegar uppsagnarstyrkir voru kynntir fyrir mánuði voru uppsagnir byrjaðar og vitað að fleiri væru á leiðinni. Á þeim tímapunkti þurfti ekki efnahagslegan hvata til að fjölga uppsögnum. Nú í morgun sendi Alþýðusambandið neyðarkall þar sem það krafðist þriggja breytinga. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar verður við einni þeirra að hálfu. Í stað 12 mánaða er komið til móts við það hálfa leið og boðið upp á sex mánuði. Hálft af þremur er kallað málamiðlun. Maður spyr sig: Málamiðlun hverra? Málamiðlun þeirra sem vilja tryggja réttindi launafólks? Hver er hinn hópurinn? Þeir sem vilja ganga á réttindin og rýra kjör? Ég skil ekki alveg hver málamiðlunin á að vera.

Það sem gleymdist hins vegar var að lesa bakhliðina á umsögninni. Þar kom nefnilega fram það sem er slysið í þessu máli. Það er samspilið við frumvarp um framlengingu hlutabótaleiðar. Þar segir Alþýðusambandið að vegna þess að það séu mismunandi skilyrði fyrir inngöngu í leiðirnar tvær (Forseti hringir.) muni launafólki verða rutt úr hlutabótum í uppsagnarleiðina. (Forseti hringir.) Það er slysið sem hefði mátt afstýra í dag.