150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er fáránlegt að halda því fram, segir hæstv. fjármálaráðherra, að þetta frumvarp hvetji til uppsagna vegna þess að skilyrði sé um 75% tekjusamdrátt. Ég vildi benda á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina kom fram að ekki hafi verið fyllilega tryggt að fyrirtæki sem væru stöndug, fyrirtæki sem hefðu getu til að halda áfram að greiða laun, nýttu sér ekki leiðina. Þau hefðu samt sem áður kosið að nýta sér þá leið. Það er engri loku fyrir það skotið með þessu frumvarpi og raunar eru fyrirtækjum gefnar fjórar dagsetningar til að miða þetta 75% tekjufall sitt við þannig að það henti sem flestum fyrirtækjum sem verða fyrir tekjufalli akkúrat núna. Það er hins vegar ekkert skilyrði um að fyrirtækin séu í rekstrarvanda. (Forseti hringir.) Þetta er vissulega hvati til uppsagnar.