150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar við þetta tækifæri að leggja það inn í umræðuna að ég hef miklar áhyggjur af því að sú ákvörðun sem fylgir breytingartillögu meiri hlutans, varðandi það að þrengja að endurráðningarferli starfsmanna í sex mánuði eftir að uppsögn er orðin virk, hægi á því endurráðningarferli, sem vonandi mun og verður að eiga sér stað í íslensku atvinnulífi. Ég held að við séum svolítið, eins og hv. þingmaður Hanna Katrín Friðriksson sagði áðan í öðru samhengi, að skjóta maur með fallbyssu. Við erum að leggja of mikla áherslu á að setja upp girðingar þegar allur meiri hluti fyrirtækja er að reyna að gera sitt besta og lifa af. Við erum upptekin af því að setja girðingar utan um þá örfáu svörtu sauði sem alls staðar eru til staðar, alveg sama hvort það er í fyrirtækjaumhverfinu eða einstaklingar sem svíkja út úr bótakerfinu. Það er alls staðar. (Forseti hringir.) Núna eigum við að einbeita okkur að því að verja þau ráðningarsambönd og þau störf sem til staðar eru. Ég er hræddur um að það að uppáleggja fyrirtækjum að ekki sé heimilt að endurráða aðila í réttri starfsaldursröð (Forseti hringir.) öðruvísi en á sömu kjörum og áður, sé hættulegt í ljósi þess að sem betur fer voru mjög margir yfirborgaðir miðað við kjarasamninga á fyrri stigum.

(Forseti (SJS): Forseti biðst enn velvirðingar á því að tímamælingar fara mjög úr skorðum. Það var ekki verið að reyna að taka ræðutíma af hv. þingmanni heldur fékk hann þvert á móti ríflega sinn skammt.)