150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

samþjöppun í sjávarútvegi.

[13:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á svari hæstv. ráðherra en ég kýs að túlka svarið á þann veg að hann telji að verkefnisstjórnin sem fjallar um fiskveiðieftirlit hafi fullt umboð til að ræða líka þessa 49% tölu og koma með rökstuddar tillögur um breytingar ef henni sýnist svo. Samþjöppun leiðir af sér fábreytt útgerðarform, aukna kerfislæga áhættu og getur leitt til einokunar. Stóru útgerðarfyrirtækin hér á landi eru í raun rekin sameiginlega. Dæmi eru um slíkt í kjördæmi hæstv. ráðherra, þau hafa samráð um veiðar, vinnslu og sölu afurða. Telur hæstv. ráðherra ekki að nauðsynlegt sé að vinna gegn slíkri samþjöppun og að stóru fyrirtækin séu orðin svo stór að völd þeirra og áhrif í þjóðfélaginu geti verið skaðleg, að áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og á vettvangi stjórnmála geti unnið gegn almannahag?