150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[14:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég vona heitt og innilega að grunnkostnaður við hjúkrunarheimilin verði gerður upp og fljótlega verði drifið í því. Í öðru lagi vil ég benda á: Jú, við verðum að horfa á það að t.d. á Suðurnesjum er skurðstofa sem búið er að nota sem geymslu í fjölda ára. Á sama tíma er komin upp sú staða að lágmarksbið í venjulegar bæklunaraðgerðir er komin upp í sex mánuði og mun lengjast stórlega þegar sumarfríin skella á. Það er því útlit fyrir að bið í venjulegar bæklunaraðgerðir stefni í að verða 9–12 mánuðir á sama tíma og einstaklingar geta ekki nýtt sér rétt sinn til að fara til útlanda í aðgerðir. Þá spyr ég: Hvað ætlar ráðherrann að gera í því sambandi? Er hún með lausn á því hvernig hún ætlar að taka á þeim gífurlega vanda sem er að skapast hjá þeim sem bíða og vonast eftir að komast í aðgerðir, liðskiptaaðgerðir?