150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[14:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Varðandi stöðu biðlista eftir liðskiptaaðgerðum þá var, eins og fram hefur komið hér og náttúrlega í aðgerðum stjórnvalda út af Covid-19, þeim aðgerðum sem kallaðar eru valkvæðar aðgerðir frestað um, ef mig minnir rétt, átta vikna skeið og ekki bara hjá sjúkrahúsum og opinberum aðilum heldur var valkvæðum inngripum frestað líka hjá stofulæknum og hjá stofum úti í bæ. Ég bíð núna eftir að fá upplýsingar frá embætti landlæknis um biðtíma eftir aðgerðum sem heyra undir biðlistaátakið og hafa ekki verið framkvæmdar vegna Covid-faraldursins og ég hef líka óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum um það hvernig þær sjá fyrir sér næstu skref varðandi það að byrja aftur á aðgerðunum. Þetta þurfum við að sjá.

Ég hef líka miklar væntingar til þess að við erum að setja upp núna umhverfi, bæði hugbúnað og annað, þar sem við getum verið með miðlægar upplýsingar um allar biðlistaaðgerðir og allar liðskiptaaðgerðir sem eru á bið þannig að við sjáum það á einum stað og almenningur sjái það líka á einum stað hver staðan er. (Forseti hringir.) Þetta mál hefur verið lengi í forgangi hjá mér enda hefur staðan verið óásættanleg (Forseti hringir.) og gríðarleg flækja fyrir almenning og þá sem þjónustunnar njóta að komast í gegnum.