150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Samtök félaga í velferðarþjónustu, sem halda úti þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila, hafa lyft grettistaki í því að halda sýkingum frá hjúkrunarheimilum í Covid-fárinu. Því hefur fylgt mikill kostnaður. Þau hafa þurft að gera tvíbýli að einbýli út af tveggja metra reglunni og þar af leiðandi orðið af tekjum frá ríkinu vegna minni nýtingar dvalarrýma. Ríkið greiðir ekki fyrir þjónustu dvalarrýma nema þau séu nýtt þannig að minni nýting rýma vegna Covid hefur rýrt tekjur hjúkrunarheimila sem því nemur og hefur starfsfólk lagt á sig mikla aukavinnu.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur orðið raunlækkun á daggjöldum til hjúkrunarheimila þrátt fyrir skýr fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um annað. Ítrekað hefur verið leitað eftir leiðréttingu, að á því fengist breyting. Hrópandi er sá munur sem er á daggjöldum sem heimilin fá til móts við það sem það kostar ríkið, Landspítala, að reka Vífilsstaði, og hafa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu ítrekað bent á þann mismun. Hjúkrunarheimili á Íslandi og starfsmenn þeirra hafa sýnt það og sannað á tímum Covid-19 hvers lags úrvalsstarfsemi fer fram á hjúkrunarheimilum á Íslandi.

Staðan á hjúkrunarheimilum hér á landi í samanburði við ýmis nágrannalönd er sláandi. Starfsfólki hjúkrunarheimila ber að þakka. Er rétt að taka fram að heimilin sáu til þess með framgöngu sinni að álag á sjúkrahúsum, sérstaklega á Landspítala, varð minna en reikna mátti með. Rekstrarform það sem mörg heimili starfa innan, svokallað sjálfseignarstofnunarform, hefur sannað gildi sitt í gegnum árin og áratugina. Ríkið á ekki að standa í slíkum rekstri þó að það greiði að sjálfsögðu fyrir þjónustuna. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa sannað tilverurétt sinn með framgöngu sinni og hagsmunabaráttu fyrir hjúkrunarheimili, burt séð frá baklandi og rekstrarformi. Samskipti ríkisvaldsins við heimilin ætti að formfesta enn frekar þannig að samráð og samvinna verði tryggð með sem bestum og skýrustum hætti til framtíðar.