150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með ástandinu í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafa lengi haldið á lofti möntrunni um ameríska drauminn sem byggi á traustum stoðum lýðræðis, mannréttinda, frelsis og jafnréttis. Einstaklingar geti með eljusemi unnið sig upp úr fátækt og skapað sér og sínum velsæld. Staðreyndin er hins vegar sú að veikt velferðarkerfi, ómanneskjulegt heilbrigðiskerfi, misskipting auðs og djúpstætt misrétti setur stóra hópa fólks í vonlausa stöðu sem er erfitt að komast úr. Ein birtingarmynd þessa misréttis er endurtekið lögregluofbeldi, nú síðast morð lögreglu á George Floyd. Vissulega einskorðast kynþáttafordómar ekki við Bandaríkin heldur þrífast líka hér eins og dæmin sýna og við þurfum auðvitað að skera upp herör til að eyða þeirri óværu sem rasismi er úti um allt, líka á Íslandi. En alþjóðasamfélagið verður líka að þora að láta Bandaríkjamenn heyra það þegar við á. Þó að við Íslendingar séum fá höfum við rödd sem tekið er eftir og við eigum að nota hana þegar mikið liggur við. Það höfum við t.d. gert í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem við höfum gagnrýnt mannréttindabrot einstakra ríkja víða um heim. Nú ríður einfaldlega á að við höfum bein í nefinu til að tala við Bandaríkjamenn með tveimur hrútshornum. Þess vegna hvet ég stjórnvöld til að gagnrýna það rótgróna misrétti sem viðgengist hefur í Bandaríkjunum í 400 ár og ekki síður gagnrýna viðbrögð núverandi forseta sem kyndir undir sundrung og gerir hlutina enn verri en ella.