150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í andsvörum í 1. umr. um fjáraukalög hér um daginn sagði fjármálaráðherra að menn treystu sér ekki til að koma með áætlun fyrir næsta ár og árin þar á eftir fyrr en í haust. Þetta sagði fjármálaráðherra eftir að ég spurði hverjar væru málefnalegar ástæður þess að fresta framlagningu fjármálastefnu og fjármálaáætlunar þangað til í haust. Það er eitthvað verulega bjagað við það að óvissuástand skuli vera kallað málefnaleg ástæða fyrir því að leggja ekki fram fjármálastefnu og -áætlun þegar tilgangur fjármálastefnu og fjármálaáætlunar er að minnka óvissu. Nánar tiltekið eiga opinber fjármál að grundvallast á sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Og hvernig getur það verið málefnaleg ástæða að fresta því að leggja fram stefnu og áætlun sem er ætlað að ná þessum markmiðum?

Menn treystu sér ekki til að koma með áætlun, segir fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem á að efla traust á stjórnmálum eða eins og segir u.þ.b. í ríkisstjórnarsáttmálanum: Ríkisstjórn þar sem flokkar sem spanna hið pólitíska íhald allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.

Þarna skipti ég út orðinu „litróf“ fyrir orðið „íhald“, vegna þess að það er nákvæmara, eini liturinn í þessu litrófi ríkisstjórnarinnar er kolsvart íhald sem skilar engri stefnu fram á við, treystir sér ekki til þess. Íhald er pólitík stöðnunar, pólitík þess að gera ekki neitt nema það allra nauðsynlegasta og helst ekki fyrr en seint og síðar meir. Hvers vegna ættum við að vera með stjórnmálamenn sem eru með það markmið að gera ekki neitt? Hvers vegna ættum við að vera með stjórnmálamenn sem treysta sér ekki til að mæta óvissu með stefnu fram á við?