150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er vor fyrir vestan og Vestfirðingar héldu nýlega vorlegt fjórðungsþing. Ein þeirra tillagna sem samþykktar voru vekur athygli og varðar miklu um hagsmuni svæðisins. Þar gætir gríðarlegrar bjartsýni. Skorað er á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og vísað er í tillögur starfshóps frá því í febrúar sl. um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun á ákveðnum prósentuhluta aflaheimilda, sem nemur um 5,3%. Meðal tillagna starfshópsins er að ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum. Liðlega 6.000 tonn hafa í mörg ár runnið til útgerða sem veitt hafa með handbeitta línu og hefur það gert þeim kleift að veiða 20% meira en kvótinn segir til um.

Nú hefur orðið mikil breyting á útgerð línubáta og vilja Vestfirðingar að þessum 6.000 tonnum verði útdeilt til þeirra byggðarlaga sem nýttu sér línuívilnun til uppbyggingar og eflingar á ýmsum sviðum, ekki endilega í sjávarútvegi. Áætlað verðmæti þessara aflaheimilda er á bilinu 5–7,5 milljarðar kr. Það verður fróðlegt að sjá hvernig sjávarútvegsráðherra bregst við þessum tillögum en hann hefur, eins og við þekkjum, varið með kjafti og klóm óbreytt kerfi í þágu stórútgerðarinnar. Það er hneisa og sjálfstætt umhugsunarefni.

Það sem þó hvílir þyngst á Vestfirðingum nú er staða Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en boðaðar skerðingar munu hafa mjög slæm áhrif á vestfirsk sveitarfélög og raunar öll minni sveitarfélög í landinu. Ég tek undir þessar áhyggjur um leið og ég vek athygli á þingsályktunartillögu okkar í Samfylkingunni um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna faraldurs kórónuveiru sem þegar hefur verið lögð fram. Þar eru áréttaðar ríkar kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga og hlutverks þeirra í nærþjónustu og lagðar til úrlausnir.

Það má undrum sæta, virðulegur forseti, ef þessari tillögu verður ekki tekið fagnandi og hún samþykkt í heilu lagi.