150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Heilsa þjóðarinnar og efnahagur fara alla jafna hönd í hönd og kórónuveiran hafði, eins og við þekkjum öll, dramatísk áhrif á hvort tveggja. Daglega settist þjóðin niður fyrir framan skjáinn þar sem við fengum upplýsingar um stöðu mála og ráð um næstu skref. Þessir fundir og upplýsingagjöf hafði gríðarlega mikið um góðan árangur að segja, þetta skipti sköpum. Samhliða aðgerðum til að verja og tryggja heilbrigði þjóðarinnar hefur nú verið farið í efnahagsaðgerðir til að vernda heilbrigði atvinnulífsins. Tugum og hundruðum milljarða hefur verið varið í það. Þetta eru stjarnfræðilegar tölur fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. En hér hefur upplýsingarnar og ráðin vantað, að almenningur sé upplýstur um hver staðan er og hvers sé að vænta. Alveg eins og við fengum úttekt úr leiðsögn sérfræðinganna okkar, þremenninganna þriggja, þarf þjóðin núna á því að halda að hópur óháðra sérfræðinga upplýsi hana um efnahagslegar afleiðingar aðgerða stjórnvalda, bæði til langs og skamms tíma. Nágrannaþjóðir okkar hafa sumar þegar gert þetta. Á það benti Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, á Rás 2 í morgun að í Noregi sé t.d. starfandi hópur hagfræðinga á vegum stjórnvalda til að vega og meta efnahagslegar afleiðingar aðgerðanna og til að upplýsa þjóðina um stöðuna eins og hún er.

Lykillinn að árangri er og verður að upplýsa um það hver staðan er og hverjar horfurnar séu, að eyða óvissu og leggja línur. Almenningur og atvinnulíf fá of litlar upplýsingar um þessar efnahagsaðgerðir. Þetta þarf að kynna á sama hátt og gert var með sóttvarnaraðgerðirnar svo almenningur og fyrirtæki fái fullnægjandi upplýsingar um stöðuna, horfurnar og framtíðarmyndina. Gylfi leggur til, og ég tek heils hugar undir það, að haldnir verði vikulegir fundir þar sem fram kemur hvað stjórnvöld eru að gera fyrir fyrirtækin, atvinnulífið og heimili landsins. Óvissunni þarf að eyða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)