150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Að þessu sinni ætla ég að leyfa mér að sleppa því að tala um Covid eða aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Ég ætla frekar að tala um kíví, bláber, banana og avókadó. Um daginn var ég að skoða ávaxtakörfuna heima hjá mér — ekki söngleikinn, enda hefur hann fengið áhorf á mínu heimili fyrir lífstíð. En það sem ávaxtakarfa heimilisins sýndi var hins vegar mjög fróðlegt. Bananinn var frá Ekvador, bláberin voru frá Marokkó, avókadóið var frá Perú og kívíið var frá Bandaríkjunum.

Þegar ég kenndi rekstrarhagfræði við Háskóla Íslands fór ég m.a. yfir það að kostnaður réði því hvar vörur væru framleiddar og síðan seldar. Sérhvert land og fyrirtæki ætti að framleiða og flytja út þá vöru sem það hefði hlutfallslega minnstan fórnarkostnað af að framleiða og það lögmál á enn við. Hins vegar virtist, í þessum kennslubókum sem maður studdist við, sem ekki væri alltaf miðað við allan kostnaðinn þótt slíkt ætti í raun að gera þegar unnið er með hugtakið fórnarkostnað. Hér á ég við hinn svokallaða loftslagskostnað eða kostnað vegna umhverfisáhrifa eða kolefnisfótsporið. Fyrirtæki eru þó farin að líta í æ meira mæli til umhverfiskostnaðarins en oft er það ekki fyrr en stjórnvöld setja kröfur og lög um slíkt.

Kostnaður vegna mengunar snertir annað hugtak í hagfræðinni sem eru neikvæð ytri áhrif en þá verður annar aðili fyrir kostnaði en sá sem veldur kostnaðinum. Þess vegna eru mengunarskattar góð hagfræðileg hugmynd því að þeir færa kostnaðinn vegna mengunar á þann sem mengar.

Herra forseti. Ég er viss um að ávaxtakarfa framtíðarinnar mun líta talsvert öðruvísi út þegar fyrirtækin þurfa að taka með í reikninginn allan umhverfiskostnaðinn sem hlýst af framleiðslunni og flutningunum milli hinna fjarlægu heimshorna.