150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Í síðustu viku skrifuðu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, undir þjónustusamning sem undirstrikar enn frekar mikilvægi Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi. Áhugi á norðurslóðum hefur aukist mjög síðustu ár, m.a. í tengslum við rannsóknir á nýtingu auðlinda og á sviði vöruflutninga. Mikilvægt er að Ísland skapi sér sérstöðu sem norðurslóðaríki, en sérstaða Íslands felst m.a. í þeim áherslum sem verið hafa hér á landi á uppbyggingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og sérfræðiþekkingu þar að lútandi.

Hér er einnig rétt að benda á mikilvægi þess að byggja upp leit og björgun sem er stórt og mikilvægt málefni í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands. Í gegnum norðurslóðastefnu Íslands geta aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum veitt íslenskum fyrirtækjum aukin sóknartækifæri og nýja vaxtarmöguleika. Þannig er líklegt að uppbygging og fjárfestingar, t.d. vegna samgangna, þjónustu við auðlindanýtingu og ferðaþjónustu, muni skapa sóknarfæri á Akureyri og víða annars staðar. Í því samhengi er mikilvægt að samskipti okkar Íslendinga við Grænlendinga og Færeyinga séu góð og byggð á traustum stoðum, enda deila þessi þrjú lönd ábyrgð á stóru og dreifbýlu svæði í Norður-Atlantshafi. Hagsmunir þessara landa eru nátengdir í viðskiptum, samgöngum og auðlindanýtingu á svæðinu. Þannig fellur uppbygging sjávarútvegs og innviða mjög vel að starfsemi íslenskra fyrirtækja.

Ég vil að lokum benda á nauðsyn þess að gerður sé loftferðasamningur á milli Íslands og Grænlands, en á hverju ári, allt frá árinu 1976, hefur t.d. Norlandair og forverar þess, ásamt öðrum íslenskum flugrekstraraðilum, þurft að óska eftir leyfi frá grænlenskum stjórnvöldum til að fljúga þangað. Slíkur samningur myndi styrkja efnahagslega samvinnu Íslands og Grænlands til langrar framtíðar og brýnt er að árangur náist hið fyrsta í því mikilvæga máli sem loftferðasamningur milli Íslands og Grænlands er svo sannarlega.