150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Síðasta áratuginn eða svo hafa verið stigin mörg skref sem miða að því að auka traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Ekki er vanþörf á. Þetta er eitt af þeim og þetta er mikilvægt skref sem ég styð að sjálfsögðu. Þó hef ég, ásamt öðrum í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, lagt fram breytingartillögur sem myndu gera okkur kleift að taka metnaðarfyllri skref núna þannig að ekki þurfi að taka næstu skref jafn fljótt og ella, vegna þess að ekki er gengið nógu langt í þessu frumvarpi. Þvert á það sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umræðunni hafa haldið fram er ekki gengið nógu langt í þessu frumvarpi. Að halda því fram að hér sé gengið of langt og að þetta mál sé illa unnið er einhver leikur til að fela ágreining flokkanna um grundvallarspurninguna um hvort auka eigi varnir gegn hagsmunaárekstrum.

Ég styð þetta frumvarp þótt sumir stjórnarliðar virðist ekki gera það.