150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Ég verð aðeins að leiðrétta síðasta ræðumann, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur. GRECO benti á að hagsmunaskráningar ráðamanna, framkvæmdarvaldsins, ættu að vera undir eftirliti. Samkvæmt frumvarpinu er ekki eftirlit með ráðherrum. Forsætisráðherra fer með eftirlitið og þá með eftirlit með sjálfum sér, sem er ekki gott, að sjálfsögðu ekki. Fram kemur í greinargerð að ekki sé haft eftirlit með öðrum ráðherrum. Það er ekki gott. Það er ekki til að efla traust á stjórnmálum, en það er hægt að laga það. Og ef það verður lagað sýnist mér að öllum athugasemdum GRECO sé fylgt. Annars sitjum við eftir með löggjöf þar sem landsmenn vita að ekki er haft eftirlit með því að ráðherrar uppfylli hagsmunaskráningu sína rétt, og ekki er eftirlit með því hvort ráðherrar sinni sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Það er það sem situr eftir ef það er ekki lagað.