150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er minni hlutinn að leggja til að sjálfstæð nefnd hafi eftirlit með framfylgd þessara reglna. Það mun tryggja að óhæði sé um hvort rétt er að staðið eður ei. Það mun efla traust á því að þessum lögum sé framfylgt og mun leysa það vandamál sem hæstv. forsætisráðherra virðist búast við, að vilja ekki hafa eftirlit með eigin ráðherrum og geti auðvitað ekki haft eftirlit með sjálfri sér. Ég sé það þó á þessari töflu að ríkisstjórnin sem vildi efla traust á stjórnmálum ætlar ekki að fela óháðum aðila að hafa eftirlit með sér.