150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[16:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur að eigin frumkvæði tekið til skoðunar tilvik þar sem grunur er um brot æðstu handhafa framkvæmdarvalds, annarra en ráðherra …“

Þetta er aðeins annað orðalag eftir að breytingartillaga meiri hlutans fór í gegn. En „annarra en ráðherra“ stendur enn þá þarna mjög skýrt, að það sé enginn sem taki til skoðunar að eigin frumkvæði tilvik þar sem grunur er um brot æðstu handhafa framkvæmdarvaldsins. Það er bara enginn sem ber ábyrgð á því samkvæmt þessum meiri hluta að hafa eftirlit og aðhald með því.

Ráðherrar í þessari ríkisstjórn eru með þessu ákvæði undanskildir eftirliti og aðhaldi með réttri hagsmunaskráningu og með samskiptum sínum við hagsmunaverði. Það er miður og þar af leiðandi sitjum við hjá í atkvæðagreiðslu um þetta ákvæði.