150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sem ég legg fram eftir að hafa átt samtöl við forseta þingsins og formenn þeirra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Ég hef lagt það til við formenn flokka á Alþingi að Alþingi muni standa samkvæmt starfsáætlun u.þ.b. til 25. júní nk., sem er sú starfsáætlun sem er í gildi. Ég hef sömuleiðis lagt það til að næsta reglulega þing verði sett þann 1. október næstkomandi. Í þriðja lagi að þingi verði frestað í lok júní, eins og áður var nefnt, og það verði sett aftur í lok ágúst til að mæla fyrir fjármálastefnu og að umræðu um hana verði lokið u.þ.b. viku síðar. Þá verði engin önnur mál tekin á dagskrá nema aðstæður vegna heimsfaraldurs krefjist þess. Í raun og veru verði það þinghald eingöngu um fjármálastefnu nema eitthvað komi upp vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem kalli á að þingið taki afstöðu til þess. En sömuleiðis að þingmenn séu á bakvakt ef eitthvað óvænt kemur upp utan þess tíma sem ég hef hér nefnt. Er það ekki nema eðlilegt í ljósi þess að á þeim tímum sem við lifum er langeðlilegast að kalla þing saman ef þess þarf en ekki ráðast í setningu bráðabirgðalaga, því að ég lít svo á að allir þingmenn, a.m.k. þeir sem ég hef rætt við, séu að sjálfsögðu reiðubúnir að vera á þessari bakvakt.

Með frumvarpinu er eingöngu lagt til að samkomudagur reglulegs Alþingis haustið 2020 verði fimmtudagurinn 1. október í stað annars þriðjudags í september, eins og þingskapalög kveða á um.

Markmið frumvarpsins er að tryggja með hliðsjón af þeirri efnahagslegu óvissu sem nú er uppi að aukið ráðrúm fáist til að undirbúa nauðsynlegar breytingar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem ég nefndi hér, verði tekin til umræðu í lok ágúst. Og hins vegar til að ganga frá fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 til framlagningar á Alþingi sem og fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2021.

Ég tel að það skipti máli og á það var bent í samtölum formanna flokka að mikilvægt væri að fjármálastefna lægi fyrir áður en fjármálaáætlun og fjárlög yrðu lögð fram. Er þar með komið til móts við sjónarmið sem fjármálaráð hafði uppi í umsögn sinni um þessa frestun.

Frumvarpið ber að skoða í samhengi við frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem mælt verður fyrir hér á eftir, um breytingu á lögum um opinber fjármál, þar sem óskað er heimildar til að víkja frá tímafresti þeirra laga vegna nauðsynlegrar endurskoðunar, fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og framlagningu fjármálaáætlunar á Alþingi. Eins og ég nefndi þá verður það frumvarp tekið til umræðu að lokinni umræðu um þessi mál. En ég vil þó segja að ég tel nokkuð ljóst að það sé skýrt og verulegt tilefni til þess víkja frá hefðbundnu regluverki laga um opinber fjármál og fresta framlagningu viðkomandi þingmála fram á haustið við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja, enda tel ég nokkuð ljóst að nauðsynlegar forsendur um þróun efnahagsmála hafi enn sem komið er ekki skýrst nægjanlega til að unnt sé að ljúka þessum málum innan þess tímaramma sem sniðinn er í lögum um opinber fjármál. Ég þarf ekki að reifa það og ég tel að hv. þingmenn muni sýna þeim efnahagslegu aðstæðum skilning sem nú eru uppi og eru auðvitað ekki einstakar fyrir okkur hér á landi, langt í frá.

Herra forseti. Samkomudegi Alþingis hefur tvívegis áður verið breytt til bráðabirgða eftir árið 1991 þegar gildandi ákvæði 35. gr. stjórnarskrárinnar um samkomudaginn var sett. Annars vegar var það árið 2013 og hins vegar árið 1992. Rakið er í greinargerð að árið 2013 var einmitt samkomudeginum frestað til að betra ráðrúm fengist til þess að undirbúa fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 sem og frumvörpum um skattalagabreytingar og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hins vegar var það árið 1992 að samkomudeginum var flýtt til 17. ágúst, en hann var þá 1. október, til þess að skapa betra rými á haustþingi til umræðunnar um frumvarp um EES-samninginn sem síðan var endanlega samþykkt í janúar 1993. Þetta frumvarp er samið með hliðsjón af orðalagi framangreindra lagabreytinga.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta mál enda skýrir það sig að öðru leyti nokkuð sjálft.