150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir, þetta er mikilvægt. Við erum hvorugar miklir aðdáendur bráðabirgðalaga, það er í raun nákvæmlega það sem ég var að draga fram. Ég held að það sé vont vopn á þessum tímum þar sem aðstæður eru allt aðrar í dag í samfélaginu en þegar bráðabirgðaákvæðið var sett inn í löggjöfina okkar.

Ég vil líka draga fram og undirstrika að það er mikilvægt að fá fram að það eru bara Covid-mál sem við erum að tala um, brýn Covid-mál til hagsbóta fyrir allan almenning. Við höfum upplifað það hér, og það er náttúrlega bullandi pólitík í því, á síðustu dögum að forgangsmál hafa verið keyrð í gegnum þingið, til að mynda er varðar sjávarútveginn, afnám stimpilgjalds á útgerð. Ég vil ekki sjá þannig mál, hvorki á stubbnum né í „forbífarten“ eða til viðbótar á öðrum dögum. Við eigum að einhenda okkur í að taka hér fyrir mál sem eru til hagsbóta fyrir allan almenning en ekki fyrir sérhagsmunaöfl.