150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir réttilega að fjárlög hafi verið afgreidd í nóvember á undanförnum árum, sem er mikil framför. Auðvitað má gera ráð fyrir því að það dragist eitthvað í þann endann úr því að þau koma síðar fram. Það þarf að hafa sinn gang. Hefur þetta áhrif á aðra? Að sjálfsögðu hefur það áhrif. En stofnanir vita í raun og veru aldrei fyrr en fjárlagagerðinni er lokið í nóvember eða desember á hverju ári hver endanleg fjárlög verða þó að þær fylgist að sjálfsögðu vel með þeirri umræðu.

Ég vil síðan benda á, af því hv. þingmaður ræðir þessa umgjörð, að í bréfi fjármálaráðs, sem ég vitnaði í áðan og er lagt fram í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sem fylgiskjal II, er farið ágætlega yfir rökin fyrir því að við leggjum til þessa frestun. Fjallað er um þessar fordæmalausu aðstæður, þó að það sé orð sem er orðið óvinsælt, sem við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum, sem ættu þá að vera nokkuð rík rök fyrir þeirri breytingu sem nú er gerð.