150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

opinber fjármál.

842. mál
[17:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og segir í lögum um opinber fjármál: „eins fljótt og kostur er.“ Er hálft ár eins fljótt og kostur er? Er ekki frekar auðvelt að leggja aftur fram endurskoðaða fjármálastefnu ef forsendurnar standast ekki, eins og gert hefur verið alla vega tvisvar? Það er alla vega betra en engin stefna, sem er tvímælalaust brot á ákvæðunum um lög um opinber fjármál t.d. hvað varðar gagnsæi. Öll önnur viðbrögð stjórnvalda hafa verið viðbrögð í skrefum: Sjáum til hvernig gengur og leggjum þá fram í nýjan pakka.

Af hverju getur það ekki nákvæmlega eins með þetta? Miðað við þær sviðsmyndir sem við höfum núna, jafnvel bara svörtustu sviðsmyndina, þá er það staðan í opinberum fjármálum sem við ætlum að vinna að koma í veg fyrir, þ.e. svörtustu stöðuna. Að sjálfsögðu getur það breyst. Ekkert að því. Vandamálið sem ég stend frammi fyrir er að það er ekkert núna. Svarið við óvissunni er ekkert. Ekki er verið að reyna að eyða óvissunni. Verið er að skila auðu. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig það geta verið rök fyrir því að gera ekki neitt þegar það er óvissa. Þegar það er óvissa hljóta öll rök að hníga að því að gera eitthvað. Og þetta eitthvað er samkvæmt lögum um opinber fjármál að leggja fram nýja fjármálastefnu eins fljótt og kostur er.