150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

opinber fjármál.

842. mál
[17:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ástæðan fyrir því að þetta orðalag er valið inn í lögin „eins fljótt og kostur er“, sé vegna þess að það er í sjálfu sér ekki hægt að segja til um það fyrir fram í lagatexta sú hversu langur tími getur liðið eða er eðlilegt að líði. Ég rakti það í framsöguræðu minni hvernig gögn muni berast til að leggja grunn að uppfærðri fjármálastefnu. Það er mat okkar að við verðum í allt annarri og betri stöðu á haustmánuðum núna síðsumars en í dag til þess að koma með ígrundaða áætlun um þróun gjaldahliðar og tekjuhliðar og þar með skuldastöðunnar, sem eru megindrættirnir í fjármálastefnunni, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Við erum í miklu verri stöðu til þess að gera þetta í dag. Það má segja að sveitarfélögin, svo dæmi sé tekið, sem eru hluti af þeirri mynd sem við þurfum að draga upp, séu bara — ja, mér liggur við að segja eiginlega í áfalli í augnablikinu, eru að reyna að glöggva sig á stöðunni. Við settum af stað sérstakt ráðgjafaráð eða stuðningshóp við Jónsmessunefndina sem er að störfum sem vettvangur fyrir samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjármálaleg samskipti. Sá hópur er að störfum og mun skila okkur greiningu sinni á stöðu sveitarfélaganna á næstu vikum. Ég nefni þetta bara sem eitt dæmi um mál sem er óskýrt í dag, hvernig áhrifin brjótast út fyrir sveitarfélögin. Ég tel að við verðum með mun betri og áreiðanlegri gögn í haust til að vinna þá vinnu. Það er það sem mér finnst standa upp úr. En á endanum er þetta auðvitað mat þingsins.